Heimsfrægir heiðursgestir á RIFF 2023

RIFF 2023 kynnir Isabelle Huppert, Vicky Krieps og Luca Guadagnino

 

Heimsfrægar kvikmyndastjörnur munu sækja Ísland heim í tilefni af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem fer fram þann 28. september til 08. Október nk. Þeirra á meðal eru stórleikkonurnar Isabelle Huppert  sem hlotið hefur fjöldamörg verðlaun fyrir frammistöðu sína og Vicky Krieps sem hlaut m.a. evrópsku kvikmyndaverðlaunin í fyrra sem veitt voru í Hörpu fyrir hlutverk  sitt í Corsage (2022). Þá mun kvikmyndaleikstjórinn Luca Guadagnino einnig koma hingað til lands en mynd hans Call Me By Your Name frá 2017 naut mikillar hylli  um allan heim.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun veita þeim heiðursviðurkenningar fyrir hönd RIFF fyrir framúrskarandi listfengi og framlags þeirra til kvikmyndagerðarlistarinnar.

Frakkland er í fókus  á RIFF í ár og er því sérstaklega gaman að goðsögnin Isabelle Huppert verði meðal gesta en hún er stórstjarna í franskri kvikmyndagerð og spannar ferill hennar meira en 50 ár. Vicky Krieps ættu margir að muna eftir út myndunum Old eftir M. Night Shyamalan og Phantom Thread eftir Paul Thomas Anderson en hún hlaut Í desember síðastliðnum verðlaun sem besta leikkonan á 35. Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem haldin voru í Reykjavík fyrir túlkun sína á Elísabetu Austurríkiskeisaraynju í Corsage (2022) eftir Marie Kreutzer. Luca Guadagnino þekkja flestir best sem leikstjóra myndarinnar Call Me By Your Name sem kom út árið 2017 og vann óskarsverðlaun fyrir besta aðlagaða handrit en myndin er byggð á skáldsögu André Aciman sem gengur undir sama nafni og kom út árið 2007.

Það er því með miklu stolti sem RIFF 2023 kynnir helstu heiðursgesti hátíðarinnar:

 

 

Isabelle Huppert

Isabelle Anne Madeleine Huppert (f. 1953) er stórstjarna í franskri kvikmyndagerð með feril sem telur allt að 150 hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpi.

Ferill Huppert er stjörnum prýddur af viðurkenningum sem endurspegla einstaka hæfileika hennar. Árið 1978 færði frammistaða hennar í myndinni The Lacemaker (1977) henni BAFTA-verðlaunin sem efnilegasti nýliðinn og sigurganga hennar hélt áfram með tvennum verðlaunum sem besta leikkona á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir Violette Nozière (1978) og The Piano Teacher (2001) en það er eflaust hennar þekktasta hlutverk. Huppert hlaut alþjóðlega lof fyrir frammistöðu sína í Elle (2016), sem færði henni bæði Golden Globe verðlaun og Óskarsverðlaunatilnefningu.ar

Til marks um varanleg áhrif hennar, útnefndi New York Times Isabelle Huppert næstbesta leikara 21. aldarinnar og á 72. kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2022 var hún sæmd heiðursgullbjörninum sem vitnisburð um ævilanga hollustu hennar við leiklistina. Með nafn sem er skráð á spjöld kvikmyndasögunnar, erum við spennt að fá að heiðra Isabelle Huppert, arfleifð hennar og óstöðvandi uppsprettu hæfileika hennar á RIFF 2023.

Trailer: Elle (2016)
Trailer: The Piano Teacher (2001)  (Verður sýnd á RIFF 23)
Trailer: Mrs Hyde (2018) (Verður sýnd á RIFF 23)

 

Vicky Krieps

Í desember síðastliðnum var Vicky Krieps (f. 1983) heiðruð sem besta leikkonan á 35. Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem haldin voru í Reykjavík fyrir túlkun sína á Elísabetu Austurríkiskeisaraynju í Corsage (2022) eftir Marie Kreutzer. Það er því sérstaklega ánægjulegt að bjóða hana velkomna á RIFF 2023 og að geta veitt henni heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi listfengi.

Ferill Krieps blómstraði um miðjan síðasta áratug þegar hún hreppti hvert hlutverkið á fætur öðru í ýmsum stórum kvikmyndaverkefnum. Hún sýndi hæfileika sína í The Young Karl Marx (2017) og Gutland (2019), en það var mögnuð frammistaða hennar í Óskarsverðlaunamyndinni Phantom Thread (2017) eftir Paul Thomas Anderson sem skaut henni upp á stjörnuhimininn.

Hrífandi nærvera hennar á hvíta tjaldinu sást bersýnilega í myndunum Bergman Island (2021) og More Than Ever (2022), næstsíðustu mynd Gaspard Ulliels. Í nýjustu mynd sinni leitaði Krieps aftur til þýska upprunans, þegar hún fór með titilhlutverkið Ingeborg Bachmann í Journey into the Desert (2023), í leikstjórn hinnar goðsagnakenndu þýska kvikmyndagerðarkonu Margarethe von Trotta.

Með frábærri frammistöðu og meðfæddum hæfileika til að túlka ólíkar persónur hefur Vicky Krieps fyllilega unnið sér inn sess sem heiðursgestur RIFF 2023.

Trailer: Corsage (2022) (Verður sýnd á RIFF 23)
Trailer: Phantom Thread (2017) (Verður sýnd á RIFF 23)
Trailer: Bergman Islands (2021)

 

Luca Guadagnino

Luca Guadagnino (f. 1971) er ítalskur kvikmyndagerðarmaður best þekktur fyrir einlægar, hjartnæmar og listrænar kvikmyndir. Guadagnino sló fyrst í gegn með rómantísku dramamyndini I Am Love (2009), með Tildu Swinton í aðalhlutverki, sem hlaut alls 14 stór kvikmyndaverðlaun. Þetta markaði upphafið að farsælu samstarfi þeirra tveggja, sem hélt áfram með margrómuðum myndum eins og A Bigger Splash (2015) og endurgerð á Suspiria eftir Dario Argento (2018).

Eitt af frægustu verkum Guadagnino er rómantíska klassíkin Call Me By Your Name (2017), sem hlaut Óskarsverðlaunin 2018 fyrir besta aðlagaða handritið. Kvikmyndin gegndi lykilhlutverki í að skjóta aðalleikaranum Timothée Chalamet upp á stjörnuhimininn, og hélt samstarf þeirra Guadagnino áfram í nýjustu mynd hans, Bones and All (2022). Guadagnino heldur áfram að færa áhorfendum hrífandi kvikmyndafrásagnir en nýjasta mynd hans, Challengers með Zendaya í aðalhlutverki, verður frumsýnd á næsta ári. Í millitíðinni er hann að leggja lokahönd á Queer, með Daniel Craig, á Ítalíu.

Framlag Luca Guadagnino til kvikmyndalistarinnar gerir hann að eftirtektarverðum heiðursgesti og upprennandi meistara á RIFF í ár.

Trailer: Call Me By Your Name (2017) (Verður sýnd á RIFF 23)
Trailer: I Am Love (2009)  (Verður sýnd á RIFF 23)
Trailer: Bones and All (2022)

 

Fyrri heiðursgestir RIFF

RIFF hefur tekið á móti gríðarlegum fjölda af merkum gestum í gegnum tíðina sem tengjast bæðiu menningu og kvikmyndagerð. Sem dæmi um þann fríða hóp sem áður hefur veitt RIFF heiður með nærveru sinni eru:

Rossy de Palma, Alexandre O. Phillipe, Albert Serra, Joachim Trier, Trine Dyrholm, Debbie Harry, John Hawkes, Mads Mikkelsen, Shailene Woodley, Werner Herzog, Darren Aronofsky, Chloe Sevigny og Lone Scherfig.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email