Íslenskar stuttmyndir í fókus í Bamberg

Íslenskar stuttmyndir í fókus í Bamberg

Reykjavík, 23. febrúar 2024 – RIFF- Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, í samstarfi við stuttmyndahátíðina Bamberg í  Suður- Þýskalandi, bauð upp á íslenskar stuttmyndir í sérstökum fókus titluðum „Rjúkandi eldgos” á nýliðinni hátíð sem fram fór í lok janúar. Aðstandendur hátíðarinnar segja heiti flokksins koma til vegna áhuga heimspressunnar á jarðeldum í landinu og snýr titillinn því þematískt að heimalandi leikstjóranna en ekki að efni kvikmyndanna.

Stuttmyndirnar vöktu mikla athygli og ánægju meðal um 4000 gesta Bamberg hátíðarinnar sem er ein elsta stuttmyndahátíðin í Þýskalandi. Hátíðin varð þó fyrir skakkaföllum stærsta verkfalls í sögu lestarsamgangna í Þýskalandi, sem lamaði allar samgöngur á svæðinu í nokkra daga, samliggjandi hátíðinni.

Að þessum sökum varð ekki að fyrirhugaðri ferð starfsmanna RIFF til Bamberg, en hátíðargestir voru þrátt fyrir það gríðarlega sáttir með þennan vandaða íslenska dagskrárlið.

Á dagskránni voru eftirfarandi myndir:

Sorgarstig – Hörður Freyr Brynjarsson, Stroud Rohde Pearce

Hópur hæfileikaríkra tónlistarmanna hittist í kjölfar föðurmissis í yfirgefinni rafstöð til að spinna saman. Með hjálp tónlistarinnar takast þeir á við hin ýmsu stig sorgarinnar og nota tónlistina til að tjá tilfinningar sínar. 

Moon Pie Vanilla – Erlendur Sveinsson

Taugaveiklaður ræningi kemur í afskekkta sjoppu með það í huga að ræna hana, en lendir í óþægilegum aðstæðum þegar hann áttar sig á því að hann er ekki sá eini í þeim erindagjörðum.

Sjoppa – Ísak Hinriksson

Maður gengur inn í sjoppu og hittir stelpu.

Allt um kring – Birna Ketilsdóttir Schram

Katharina gengur frá hlutum ömmu sinnar eftir að hún deyr og upplifir minningar og leitar að nærveru hennar allt um kring. Persónuleg stuttmynd um missi og hina eilífu von um að hittast aftur. 

Bókaskipti (Síðsumar í Reykjavík) – Bergur Árnason sem fékk íslensku stuttmyndaverðlaunin á RIFF í fyrra.

Niðurdreginn rithöfundur rekst á dularfullan miða í bók sem hún finnur í almenningsgarðinum í hverfinu. Hún byrjar að skrifa skilaboð til baka og með henni og hinum ókunnuga miðahöfundi þróast óvenjulegt samband. 

Náttúrubönd – Sven Petoom, Gríma Irmudóttir og Jonathan Damborg

Náttúrubönd er ljóðræn rannsókn á breyttu sambandi okkar við íslenska náttúru og landslag. Við fylgjumst með fjórum einstaklingum; aktivísta, dansara, vísindamanni og lífræðingi á ferðalagi um náttúruna. Þeir harma missi hinnar deyjandi fegurðar náttúrunnar og sinnar eigin tengingar við hana.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Marínósdóttir, hátíðarstjórnandi RIFF, hronn@riff.is

 

 

 

 

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email