„Natatorium“ keppir á SMART7

Kvikmynd Helenu Stefánsdóttur „Natatorium“ verður framlag RIFF í alþjóðlegri keppni SMART7 samstarfsnetsins. SMART7 samanstendur af 7 evrópskum kvikmyndahátíðum en framlag okkar keppir við sex aðrar kvikmyndir frá Portúgal, Lithaén, Rúmeníu, Póllandi, Spáni og Grikklandi..

Smart7 var stofnað árið 2023 og er faglegur samstarfsvettvangur sjö kvikmyndahátíða sem starfræktar eru víðsvegar um álfuna. Þar á meðal er RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Samstarfið er knúið áfram af Creative Europe – MEDIA sjóðnum og er ætlað að efla og styrkja menningarleg og listræn tengsl hátíðanna á milli og ekki síst, skapa tækifæri fyrir upprennandi kvikmyndagerðarfólk á alþjóðavettvangi.

Rotin fortíð á frumsýningu í Rotterdam

„Natatorium“ var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam, IFFR, í febrúar 2024 og er einskonar listræn og lágstemmd hryllingsmynd. Kvikmyndin hefur hlotið fádæma góðar viðtökur meðal gagnrýnenda og almennings. Sagan tekst á við dekkri hliðar mannlegrar tilveru þegar unglingsstúlkan Lilja þarf að horfast í augu við hryllileg fjölskylduleyndarmál í heimsókn til ömmu sinnar og afa.

Leikstjórinn Helena Stefánsdóttir er fædd 1967 og hefur sent frá sér tvær heimildarmyndir, „Baráttuna um landið“ og „Systur.“ „Natatorium“ er fyrsta mynd Helenu í fullri lengd en auk heimildamyndanna tveggja hefur hún leikstýrt sex stuttmyndum.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF 2024 fer fram dagana 26. september til 6. október. Þar gefst hátíðargestum færi á að sjá „Natatorium“ auk kvikmyndanna sex sem keppa til sigurs í kvikmyndasamkeppni Smart7. Áhugasamir geta lesið sér til um Smart7 keppnina hér.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email