Search
Close this search box.

LEITA

Search
Close this search box.

Verið velkomin í bíó -miðasala á RIFF er hafin

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst í næstu viku, fimmtudaginn 24. september nk. með frumsýningu á Þriðji Póllinn eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason og lýkur þann 4. október með frumsýningu á Á móti straumnum, eftir Óskar Pál Sveinsson.

RIFF hátíðin er nú haldin í sautjánda sinn og úrvalið af myndum hefur sjaldan verið jafn fjölbreytt. Hinn þekkti dagskrárstjóri Frédéric Boyer hefur sett sitt mark á dagskrána og m.a. skapað nýjan flokk er kallast Innsýn í huga listamanns. Myndir í þeim flokki tengja kvikmyndalistina þvert á aðrar listgreinar.

Í ár verður hátíðin með nokkuð öðruvísi hætti en áður. Kvikmyndaunnendur um land, allt frá Akranesi til Raufarhafnar, munu geta notið gæða kvikmynda heima í stofu með sýningum á netinu.Allra bestu myndirnar verða sýndar í Bíó Paradís og Norræna Húsinu, Athugið að takmarkað sætaframboð er í boði. Hægt verður að kaupa alla miða í gegnum www.riff.is

Á dagskrá eru glænýjar myndir sem koma margar hverjar beint frá stóru kvikmyndahátíðunum m.a í Cannes, Feneyjum, San Sebastian og Locarno. Um er að ræða gæðamyndir af ýmsu tagi eftir virta leikstjóra og með heimsfrægum leikurum á borð við Frances McDormand, Mads Mikkelsen, Björk og Dylan Gelula.

Myndirnar fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá örlagaríkri sögustund í alræmdu fangelsi á Fílabeinsströndinni, sirkuslist, geðhvörfum og grátbroslegri leit að ást til skuggahliða samfélagsmiðla og ólögmæts skógarhöggs. Myndirnar á RIFF vekja forvitni hjá áhorfandanum sem hvetur hann til að taka stökkið og sjá myndir bæði innan og utan síns áhugasviðs.

Á meðal kvikmyndaperla á RIFF má nefna Einn til/Another Round, nýjustu mynd Thomas Vinterberg með Mads Mikkelsen í aðalhlutverki, Nomadland/Hirðingjaland í leikstjórn Chloe Zhao, sem hlaut Gullna Ljónið, aðal-verðlaun kvik¬mynda¬hátíðar¬inn¬ar í Fen¬eyj¬um, 200 metres/200 Metrar í leikstjórn Ameen Nayfeh, sem hlaut áhorfendaverðlaunin í Feneyjum og Ég er Gréta/I am a Greta í leikstjórn Nathan Grossman, sem var frumsýnd nýverið á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Á RIFF hátíðinni verða 110 myndir sýndar, 61 mynd í fullri lengd og 49 stuttmyndir. Þá verður byggð brú yfir til EFA verðlaunanna í desember með sérstökum bíóhelgum í október og nóvember. Helgarnar verða tileinkaðar hryllingsmyndum, áhugaverðum heimildamyndum um listamenn og íslenskum myndum sem tilnefndar hafa verið til EFA verðlaunanna. Fjöldi Norðurlandafrumsýningar eru á dagskrá auk Evrópu- og heimsfrumsýninga. Í ár eru 55 % kvikmyndagerðarfólks konur og 45% karla. Í flokki Vitrana eru 3 af 8 leikstjórum kvenkyns, í flokknum fyrir Opnu hafi eru 5 leikstjórar af 9 kvenkyns og í flokknum Önnur framtíð eru 12 leikstjórar, jafn margir af hvoru kyni.

Á hátíðinni verða sýndar myndir frá 47 löndum. Íslandi, Palestínu, Jórdaníu, Katar, Ítalíu, Svíþjóð, Hollandi, Spáni, Argentínu, Mexíkó, Bretlandi, Frakklandi, Kanada, Senegal, Bandaríkjunum, Lesótó, Danmörku, Búlgaríu, Noregi, Ísrael, Póllandi, Suður-Afríku, Úkraínu, Litháen, Austurríki, Rúmeníu, Þýskalandi, Taívan, Ástralíu, Finnlandi, Tyrklandi, Suður-Kóreu, Rússlandi, Grænlandi, Lúxemborg, Egyptalandi, Grikklandi, Kólumbíu, Perú, Portúgal, Tékklandi, Slóvakíu, Eistlandi, Japan, Ungverjalandi, Nýja-Sjálandi og Möltu.

Á dagskránni er að finna fjölda íslenska mynda allt frá stuttmyndum til heimilda- og bíómynda. Frumsýndar verða Þriðji Póllinn í leikstjórn Anní Ólafsdóttur og Andra Snæs Magnasonar, Sirkusstjórinn í leikstjórn Helga Felixssonar og Titti Johansen í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík, Á móti straumnum, í leikstjórn Óskars Páls Sveinssonar, Hatrið, í leikstjórn Önnu Hildar Hildibrandsdóttur, Húsmæðraskólinn, í leikstjórn Stefaníu Thors og Skuggahverfið, í leikstjórn Jóns Gústafssonar.

Sérviðburðir á RIFF verða á sínum stað. Tvær spennandi nýjungar verða í boði í ár Bílabíó RIFF og Bíóbíll RIFF.

Bílabíó RIFF með bíósýningar á risaskjá á Granda dagana 25-28 september með fjórum spennandi sýningum – stórmyndin Hárið/Hair – Ég er Gréta/I am Greta – Sputnik- Hunskastu út/Get The Hell Out. Bíóbíll RIFF fer af stað í dag, fimmtudaginn 17. september. Börnum um land allt verður boðin sérstök stuttmyndadagskrá, seinnipart verða sýndar verðlaunaðar, evpróskar stuttmyndir og á kvöldin verður bíóbíllinn notaður til að sýna stórmyndina Dancer in the Dark. Ekki misa af bíóbílnum í þínum bæ! Að vanda verða glæsilegir Bransadagar haldnir. Viðamikil dagskrá fer fram bæði í Norræna Húsinu og á netinu. Kynnt verða íslensk verk í vinnslu og pallborðsumræður verða m.a. um konur í sjónvarpi og kvikmyndagerð. Lögð verður áhersla á íslenska kvikmyndagerð.

Vönduð dagskrá verður í boði fyrir börn á öllum aldri í samstarfi við List fyrir Alla. Grunnskólakennurum býðst að fá sent sérstakt kynningarefni með myndunum.

Miðasala hefst í dag á www.riff.is og er takmarkaður fjöldi sæta í boði. Stakur bíómiði í Bíó Paradís og Norræna Húsið kostar 1.690 kr. Hver sýning á netinu kostar 1.190 kr. myndin og verður hægt að kaupa myndir saman í pakka á lægra verði.

Samstarfsaðilar RIFF eru RÚV, Creative Europe –Media og Reykjavíkurborg auk fjölda annara samstarfsaðila og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email