Viðtal við Sophie Blondy, leikstjóra Segðu mér Iggy

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er nú haldin í tuttugasta sinn og eru fimm dagar eftir af hátíðinni. Ein þeirra mynda sem við sýnum á RIFF 2023 er heimildarmyndin Tell Me Iggy / Segðu mér Iggy eftir franska leikstjórann Sophie Bondy sem fjallar um líf og list hins goðsagnakennda rokkara Iggy Pop. Við spurðum Sophie út í samstarf hennar og Iggy sem hefur staðið yfir í meira en tíu ár.

  1. Samstarf þitt og Iggy Pop nær aftur til kvikmyndar þinnar L’Etoile du jour (2016), þar sem hann lék aðalhlutverk. Hvað var það sem heillaði þig upphaflega við Iggy og fékk þig til að bjóða hlutverk í myndinni?

Kvikmyndin L’Etoile du jour kom út árið 2016 en ég hef þekkt Iggy síðan 2011. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir hinum einstaka, uppreisnargjarna, hæfileikaríka og réttsýna listamanni sem hann er. Að biðja hann um að leika hlutverk „Samviskunnar“ sem er aðalpersónan í mynd minni var augljóst. Alheimurinn leiddi mig til hans. Stundum er okkur ýtt áfram, út fyrir okkur sjálf, það er það sem gerðist. Það var eins og opinberun og ég fylgdi hjarta mínu. Þá varð allt skýrt og auðvelt. Iggy, sem bjó í Miami, dreymdi um að vinna með Denis Lavant sem lék Elliot (hvernig gat ég giskað á það?). Iggy vildi líka sjá fyrstu kvikmyndina mína í fullri lengd She & Him on the 14th Floor með Guillaume Depardieu og honum líkaði hún mjög vel. Þetta byrjaði allt þar.

  1. Heimildarmyndin þín Segðu mér Iggy afhjúpar líflegan persónuleika Iggy Pop. Í ljósi fyrra
    Sophie Blondy, leikstjóri Segðu mér Iggy

    samstarfs ykkar, hvað var það sem fékk þig til að kafa ofan í persónulega sögu Iggy Pop og hvers vegna fannst þér mikilvægt að gera þessa heimildarmynd?

Ég fylgdist með Iggy á tónleikum í 10 ár og kvikmyndaði hann í Frakklandi, Berlín og Aþenu. Mig langaði að gera heimildarmynd með dýpra og öðruvísi sjónarhorn. Heimildarmynd sem hefði viðkvæma vídd eins og ég sá hana sjálf, umfram ytra byrði. Að fara lengra, handan skynjunarinnar. Iggy þáði það strax og gaf mér stærstu gjöf sem ég hefði getað fengið þegar hann sagði: „Þú mátt kvikmynda mig eins og þú vilt, ég veit hvernig þú sérð mig.“ Sjálfstraust hans er hin fullkomna gjöf. Rétt eins og hann sjálfur er FULLKOMINN.

  1. Hvernig var að gera heimildarmynd með rokkstjörnu? Hvernig var það frábrugðið því að vinna saman að skáldaðri mynd?

Það að leikstýra leikurum og sviðsetja mynd er mismunandi eftir því hvort myndin er skálduð eða heimildarmynd en upphafspunkturinn er alltaf traust. Allt verður til út frá þeim hlekk. Iggy sér allt og maður verður bara að vera maður sjálfur. Á milli okkar er það auðvelt. Iggy er mjög forvitinn, faglegur og næmur, hann er svo innblásinn og hvetjandi. Það er eins og galdur, kosmískir straumar. Mér líður eins og við höfum þekkst að eilífu.

  1. Hver var aðaláherslan þín við að túlka margþætta persónu Iggy í heimildarmyndinni og hvernig valdir þú þema til að vinna út frá?

Það er dularfullt ferli að gera kvikmynd. Innblásturinn kemur þegar hann vill og það er hann sem drífur mig áfram. Kvikmynd er sín eigin eining og ég fylgi henni eftir bestu getu. Það er myndin sem leiðir og er drífandi. Það tók mig nokkur ár að gera Segðu mér Iggy og þó að síðustu viðtölin við Iggy í Miami séu nýleg þá hófst þetta allt miklu fyrr í hjarta mínu. Ég vildi deila gæfu minni með öðru fólki og sýna þeim „þennan Iggy“.

  1. Heimildarmyndin þín fangar á áhrifaríkan hátt óheflaða nærveru Iggy í gegnum  fundnar upptökur frá upphafi ferils hans allt til nýlegra tónleikaupptakna. Hvernig safnaðirðu þessu myndefni og settir það saman til að túlka frjálslyndan persónuleika Iggy? Hvernig var ferlið þitt við að segja söguna í gegnum þetta myndefni?

Ég hef verið að kvikmynda Iggy á tónleikum í áratug og við höfum náð frábæru efni. Enn og aftur er það myndin sem leiðir mig áfram og ég leyfi mér að fylgja henni og vera drifin áfram af henni. Það er langt verkefni að setja saman mynd með klippara. Við leitum, við könnum, það er langt og spennandi ferli. Það verður að finna jafnvægi í taktinum. Myndirnar, tónlistin, orðin… Það er alltaf kvikmyndin sem stendur uppi sem sigurvegari. Ég er bara rásin sem gerir myndinni kleift að fæðast og þróast og það eru stórkostleg forréttindi.

  1. Í kjölfar velgengni grípandi heimildarmyndar þinnar, eru einhverjar horfur á framtíðarsamstarfi á milli þín og Iggy?

Ég er núna að ferðast með Segðu mér Iggy á milli kvikmyndahátíða. Að öðru leyti læt ég lífið veita mér innblástur… við sjáum til! En það er eitt sem ég vil bæta við. Iggy er óaðgreinanleg vera sem vekur okkur öll upp með tónlist sinni, geislandi nærveru og styrk. Hann sjálfur er gjöf í vídd sem er jafn stór og gáfur hans og auðmýkt. Hann er sjaldgæf vera með stórt hjarta. Að hitta hann breytti lífi mínu. Hann sá mig.

Tell Me Iggy / Segðu mér Iggy

Sophie Blondy, FR, 2022, 52 min

5.10. @ Háskólabíó 4 – 15:45 + Q&A  Hægt er að kaupa miða hér

7.10. @ Háskólabíó 3 – 21:00     Hægt er að kaupa miða hér

Persónuleg heimildarmynd um rokkgoðsögnina Iggy Pop sem tekin var upp í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir Canal+. Myndin býður áhorfendum að fylgja hinum 76 ára listamanni, sem er enn að koma fram um allan heim, í gegnum viðtöl við vini hans og samstarfsmenn á borð við John Waters, Johnny Depp, Debbie Harry og Blondie, Denis Lavant, Pierre & Gilles og framleiðanda hans Alain Lahana.

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email