Áfram stelpur!

lþjóðlegur baráttudagur kvenna var síðastliðinn föstudag, 8. mars 2024. Baráttan fyrir jafnrétti stendur þó alla daga ársins.

Minnumst við þeirra dugmiklu og hugrökku kvenna sem ruddu brautina fyrir okkur sem á eftir komu. Við viljum sömuleiðis minna á mikilvægi þess að halda umræðunni um jafnrétti á lofti, þar sem slík mannréttindi eru ekki sjálfsögð réttindi.

Íslandi hefur oft verið lýst sem jafnréttisparadís, en þó sýna nýlegar rannsóknir að kynjaslagsíðan í skapandi greinum og kvikmyndagerð er töluverð og víða er langt í land. Þrátt fyrir það eru góðir hlutir að gerast og íslenskar kvikmyndagerðakonur eru í stórsókn.

Stelpur filma!
RIFF vill leggja sitt af mörkum í þágu jafnréttis í greininni, meðal annars með umsjón átaksverkefnisins Stelpur filma! sem starfar að fyrirmynd alþjóðlegu Stelpur rokka! samtakanna, sem rekin hafa verið hér á landi í áratugi. Stelpur filma! hefur notið liðsinnis einstakra hæfileikakvenna sem hafa lagt sig fram um að efla nýja kynslóð stúlkna og hinsegin ungmenna til dáða í greininni.

Kvennaverkfall
Árið 1975 var sögulegt í íslenskri mannréttindabaráttu, þegar íslenskar konur lögðu niður störf og mættu á mótmælafund, þar sem þær kröfðust réttinda, betri kjara og virðingar. Enduróms þessa atburðar gætir æ síðan í gegnum áratugina og þann 24. október 2023 var boðað til kvennaverkfalls á ný.

Kvikmyndin The Day that Iceland Stood Still (2023) eftir Pamelu Hogan segir frá þessum atburðum með mögnuðum hætti. Kvikmyndin var sýnd á RIFF 2023.

Áfram stelpur!

 

 

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email