Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)

Mannauðsstefna

Markmið mannauðsstefnunnar: fagmennska, virðing og gleði

Markmið með mannauðsstefnu Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík er að það hafi á að skipa áhugasömu og hæfu starfsfólki sem hefur framsækni og velferð þess að leiðarljósi. Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og starfsskilyrðum þar sem virðing og jafnrétti einkennir öll samskipti. 

Lögð er áhersla á að skapa jákvæða vinnustaðamenningu, með sterkri liðsheild, tækifærum til þróunar, hvatningu til að sýna frumkvæði, opnum skoðanaskiptum og góðri miðlun upplýsinga. Mannauðsstefnan felur í sér sameiginlega sýn starfsfólks á þá þætti sem gera hátíðina að eftirsóknarverðum vinnustað. 

Leiðarljós mannauðsstefnu eru:

  • Virðing og jafnræði.
  • Þekking og frumkvæði.
  • Samvinna og sveigjanleiki
  • Vellíðan á vinnustað.
  • Viðleitni til að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma starf og einkalíf.
  • Að starfsfólk njóti hæfileika sinna og menntunar.

Í þessu felst að Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF):

  • Virði alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra mikils.
  • Virkja alla starfsmenn til að móta og bæta starfsemina.
  • Starfi í anda jafnræðis og jafnréttis.
  • Bjóði upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.
  • Leggi áherslu á gæði starfs og áreiðanleika.
  • Upplýsi starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:

  • Virði samstarfsmenn sína.
  • Séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim.
  • Viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana.
  • Sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði.
  • Sýni ábyrgð.

1. Ráðningar og móttaka

1.1. Ráðningar

Gæta skal jafnræðis í ráðningarferlinu. Ráðning skal byggjast á hæfni umsækjanda til að sinna starfinu. Við ráðningar skal horfa til fjölmenningar. Í ráðningarviðtali skal gæta jafnræðis og skal ganga frá ráðningu með formlegum hætti. Nýir starfsmenn skulu fá fræðslu um starfsemi Reykjavík International Film Festival eftir því sem við á hverju sinni. 

  • Hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík er staðið löglega og faglega að ráðningum.
  • Ráðning byggist á hæfni umsækjenda.
  • Jafnréttissjónarmiða er gætt við ráðningar.
  • Við úrvinnslu umsókna er leitað álits þeirra sem starfa munu nánast með hinum nýja starfsmanni.
  • Öllum umsækjendum um störf er tilkynnt um niðurstöðu þegar hún liggur fyrir.

1.2. Móttaka á nýju starfsfólki

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita því fræðslu um helstu þætti í starfi þess og læra á þau verkfæri og vinnubrögð sem þarf til að ná árangri m.a. með því að:

  • Allir fái leiðsögn og stuðning.
  • Tryggja að allir fái nauðsynlegar upplýsingar og kynningu á helstu þáttum í starfsemi hátíðarinnar.
  • Að allir fái í hendur starfslýsingu og upplýsingar um réttindi þeirra og skyldur.

1.3. Jafnrétti 

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík  gætir þess að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Stjórnendum ber að stuðla að markvissri aðlögun erlendra starfsmanna.

1.4. Starfslok

Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður. Sé um að ræða meintar ávirðingar í starfi þarf að gefa starfsmanni tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn.

2. Vinnuumhverfið

2.1. Vinnuuhverfi og aðbúnaður

Vinnuumhverfi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík er nútímalegt, framsækið og sveigjanlegt. Vinnuaðstaðan er fjölbreytt og starfsfólk getur valið um ólíkar starfsstöðvar sem eru sniðnar að þörfum og verkefnum hverju sinni. Starfsfólk hefur aðgang að opnu rými, næðisrými og fundarherbergjum og samvinnuaðstöðu, eins og mögulegt er. Reynt er eftir fremsta megni að bjóða bestu úrræði, stuðning og aðstöðu fyrir starfsfólk og ýta þannig undir sköpunarkraft, sveigjanleika og samvinnu. 

2.2. Sveigjanleiki og fjarvinna

Lögð er áhersla á sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Sveigjanlegur vinnutími virkar í báðar áttir, þ.e. starfsmaður getur sinnt persónulegum erindum á vinnutíma og sýnir hátíðinni sveigjanleika á móti þegar þörf er á. Mismunandi fjölskylduaðstæðum s.s. veikindum barna eða ummönnun aldraðra foreldra, er sýndur skilningur.

Fjarvinna stendur starfsfólki til boða, þar sem því er við komið. Starfsfólk sem kýs að vinna fjarvinnu gerir það alltaf í samráði við sinn stjórnanda og út frá skipulagi sem hentar hverju sinni. 

2.3. Samræming vinnu og einkalífs

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík vill skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og einkalífs eins og kostur er. Hátíðin vill að starfsmenn fái notið sveigjanleika í starfi þar sem hægt er að koma því við. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa. Reynt er að lágmarka yfirvinnu og leitast við að viðburðir og námskeið séu haldin á vinnutíma. 

Stjórnendur skulu hvetja væntanlega foreldra til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum til jafns á við konur.

2.4. Vellíðan 

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur sig fram um að skapa umhverfi sem styður við heilsu, ánægju og vellíðan starfsfólks. Mikil áhersla er lögð á góð uppbyggileg samskipti, liðsheild og góða vinnustaðamenningu þar sem ríkir traust og virðing. Hátíðin vill að starfsfólk geti tjáð hug sinn, sett fram nýjar hugmyndir, spurt spurninga og gert mistök. Það eykur líkurnar á að starfsfólk upplifi öryggi, traust og vellíðan í starfi.

3. Fræðsla og vöxtur

3.1. Símenntun

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík beitir sér fyrir því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan vinnustaðarins til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi. Það er á ábyrgð starfsmanns sem yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. Viðleitni starfsmanna til að auka þannig hæfni sína er liður í starfsöryggi þeirra. Starfsmenn geta óskað eftir aukinni ábyrgð eða tekið að sér ný verkefni. 

 

3.2. Endurgjöf

Stjórnendur eru hvattir til þess að kanna hvernig starfsfólki líður almennt, hvernig verkefni þeirra ganga, hvort þau hafi viðeigandi úrræði, tæki og tól til að sinna starfi sínu, fræðsluþörf þeirra og þróun og hvort að það séu einhverjar hindranir sem hægt er að ryðja úr vegi. Uppbyggjandi og markviss endurgjöf er forsenda þess að starfsfólk geti bætt sig, vaxið og dafnað í starfi.

4. Starfshæfni og starfsþróun starfsmanna

4.1. Starfsmannasamtöl

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur mikla áherslu á að starfsmenn fái notið hæfileika sinna í starfi. Starfsmenn eiga rétt á starfsmannasamtölum a.m.k. einu sinni á ári. Tilgangurinn með samtölunum er að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf. Í starfsmannasamtölunum fer fram umræða um fræðsluþörf og leiðir til úrbóta. Í starfsmannasamtali á starfsmaðurinn að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

4.2. Starfsþróun

Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum, sem starf þeirra gerir til þeirra, svo sem vegna tæknilegrar og faglegrar þróunar og vera reiðubúnir til að þjálfa sig til nýrrar og breyttra verkefna. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns og er m.a. sinnt með þátttöku starfsmanns í starfsmannasamtölum, símenntun og samvinnu. Starfsþróun á sér stað þegar starfsmanður tekst á við starf eða ný verkefni, sem gera nýjar kröfur til hans. 

Tilgangurinn er sá að starfsmenn geti skilað verðmætari vinnu sjálfum sér og hátíðinni til hagsbóta. Starfsfólki er gert kleift að efla þekkingu sína og hæfni í samræmi við síbreytilegar kröfur á vinnustaðnum og ytra umhverfi m.a. með því að;

  • Skapa starfsfólki skilyrði til að þróast í starfi og hafa áhrif á starfsumhverfi sitt.
  • Hvetja starfsmenn til að viðhalda færni sinni, bæta fagþekkingu sína og afla sér þekkingar sem nauðsynleg er starfsins vegna.
  • Starfsfólk leitist við að laga sig að síbreytilegum kröfum í starfi sem eru tilkomnar vegna tækninýjunga og faglegrar þróunar.
  • Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á starfsþróun sinni í samráði við stjórnendur.

5. Vinnuumhverfi

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík vill stuðla að trausti í samskiptum milli starfsmanna sinna og leggur áherslu á að jafnræði ríki í samskiptum. Reglur um samskipti, boðleiðir og upplýsingastreymi skulu vera skýrar og einfaldar og aðgengilegar öllum. Hátíðin vill stuðla að góðum starfsanda og að starfsmenn sýni samstarfsmönnum sínum og öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót. 

5.1. Heilsueflandi vinnustaður

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur áherslu á vellíðan á vinnustaðnum og starfsfólk er hvatt til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl og vistvænan ferðamáta. 

5.2. Vinnuvernd

Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi. Það eru gagnkvæmir hagsmunir hátíðarinnar og starfsmanna að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft að leiðarljósi. Starfsmenn bera ábyrgð á að leggja rækt við eigin heilsu. Þá skal þess gætt að yfirvinnu sé haldið innan hóflegra marka. 

Vinnuumhverfið skal vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er. Jafnframt ber starfsmönnum að fylgja þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, um öryggi og gætni í starfi. 

5.3. Vinnustaður án vímuefna

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur áherslu á að halda vinnustað sínum án vímuefna. Notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil. 

5.4. Aðgerðir ef samskiptareglur eru brotnar

Starfsmaður sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til starfsmissis.

6. Launastefna og launaákvarðanir

6.1. Launastefna

Markmið Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík er að hæfir starfsmenn veljist til starfa, þeir uni þar hag sínum og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnan skal taka mið af hátíðar og starfsáætlunum. 

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á launastefnu sem byggist á jafnlaunastefnu og jafnréttisáætlun. Markmiðið er að tryggja að öllum kynjum séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. 

6.2. Launaákvarðanir

Launaákvarðanir skulu vera málefnalegar. Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Einnig er mikilvægt að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsmanna.

  • Framkvæmdastjóri ber formlega ábyrgð á öllum launaákvörðunum og gætir þess að samræmis sé gætt við alla ákvarðanatöku þar um. 
  • Launaákvarðanir skulu byggðar á gagnsæjum og málefnalegum forsendum, í samræmi við kjarasamninga og starfslýsingar skulu vera til fyrir öll störf.
  • Launaákvarðanir skulu tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. 
  • Í starfslýsingu komi fram þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfs.

6.3. Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

Stjórnendur og starfsmenn bera sameiginlega ábyrð og tryggja að langtímamarkmiðum sé náð. Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti. Þeir felast meðal annars í jákvæðu viðhorfi til starfsmanna, virku upplýsingastreymi og dreifingu valds og ábyrgðar. Stjórnandi skal jafnan leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir víðtækri sátt um þau. Stjórnendur bera ábyrgð á störfum starfsmanna og eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið. 

  • Stjórnendur bera ábyrgð á að upplýsingaflæði sé gott og boðleiðir skýrar.
  • Leitast skal við að ná niðurstöðu um álitamál með lýðræðislegum hætti.
  • Stjórnendur bera ábyrgð á að ágreiningsmálum sé beint í réttan farveg.
  • Stjórnendur bera ábyrgð á að langtímamarkmiðum sé náð.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur áherslu á að starfsmenn séu stundvísir og við störf á þeim tíma sem samið hefur verið um og fram kemur í ráðningarsamningi. Stjórnanda ber að fylgjast með mætingum starfsmanna. 

Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heillindum að markmiðum sem starfseminni eru sett. 

Þeim ber að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara sinna. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna og forðast að hafast nokkuð það að, sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekks eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er þeir vinna við. 

Starfsmenn eiga að gæta þess að þiggja ekki greiðslur aða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem endurgjald fyrir greiða. Þeim ber að hafa ítrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlætiskennd í störfum sínum.