Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)

Reykjavík International Film Festival snýr aftur í september 2025 með spennandi úrval frumsýninga sem mun hrífa bæði áhorfendur og heilla gagnrýnendur. Fyrstu tíu myndirnar sem nú eru kynntar gefa sterka vísbendingu um veisluna sem í vændum er – djarfar frumraunir nýliða í bland við þekkt verk reyndra meistara, og ógleymanlegar sögur hvaðanæva úr heiminum. Frá leiftrandi kómík og háspennumyndum til ljóðrænna heimildamynda sýnir dagskrá fjölbreytnina og nýsköpunina sem einkenna anda RIFF.


Við höldum svo áfram að afhjúpa ómissandi myndir á RIFF 2025 – hver og ein til þess fallin að kveikja umræður, vekja undrun og lýsa upp menningarlíf Reykjavíkur í haust.

1

Fyrirgefðu, vina (Sorry, Baby) - Eva Victor

Kolsvart gamandrama um Agnesi, ungan háskólakennara í sveitum Massachusetts sem er að fóta sig í tilverunni eftir að brotið var á henni kynferðislega. Myndin hefur hvarvetna hlotið mikið lof fyrir magnaða sögu, sem sögð er af hlýju í ólínulegum köflum, um áfall, seiglu, vináttu og bata.

2

Fljótið bláa (The Blue Trail) - Gabriel Mascaro

Draumkenndur óður Gabriels Mascaro til þess að eldast með reisn leiðir okkur í ferðalag – á fleiri en einn hátt – niður eftir Amazon-fljótinu, þar sem frásögnin fylgir hinni 77 ára gömlu Teca í uppreisn gegn brasilískum stjórnvöldum sem vildu helst gleyma henni. Myndin er tekin upp með litríku myndmáli og segir innblásna og mannbætandi sögu um að finna frelsi þvert á allar hindranir.

3

Það sem eftir er af þér (All That’s Left of You) - Cherien Dabis

Í þessari hrífandi stórmynd Cherien Dabis, sem spannar heilan áratug, segir frá palestínsku pari sem finnur kjark og von mitt í linnulausum átökum. Þau standa frammi fyrir örlagaríkri ákvörðun sem tengist mótmælum á Vesturbakkanum — atburði sem á eftir að umbreyta örlögum fjölskyldunnar.

4

Drottning hinna dauðu (Queens of the Dead) - Tina Romero

Fyrir meira en hálfri öld sendi George A. Romero frá sér meistaraverkið The Night of the Living Dead, og nú kveður dóttir hans Tina sér hljóðs með Queens of the Dead — stórskemmtilegum gamanhryllingi þar sem dragdrottningar og klúbbgestir í Brooklyn berjast við uppvakninga með kjarkinn, háa hæla og glimmer að vopni.

6

Sirât - Óliver Laxe

Ung kona hverfur á reif-tónleikum í eyðimörkinni í suðurhluta Marokkó og faðir hennar og bróðir leggja af stað út í óbyggðirnar að leita hennar. Þessi lágstemmda en tilfinningaríka vegamynd er knúin áfram af von, trega og dynjandi danstónlist sem skilar feðgunum jafnt sem áhorfendum gegnum hrjóstrugt landslagið.

5

Elenóra mikla (Eleanor the Great) - Scarlett Johansson

Frumraun Scarlett Johansson í leikstjórastólnum segir frá hinni 94 ára Eleanor Morgenstein sem flytur til New York þegar aldavinur hennar fellur frá. Þar gengur hún óvart í stuðningshóp fyrir eftirlifendur Helfararinnar og deilir sögu vinarins látna um leið og hún vingast óvænt við ungan nema í blaðamennsku.

9

Kvöldvaktin (Late Shift) - Petra Volpe

Floria er samviskusöm hjúkrunarkona á skurðdeild sjúkrahúss þar sem álagið er ómanneskjulegt. Kvöldvakt eina verða mistök sem hrinda af stað atburðarás í kappi við tímann í mynd sem gefur raunsanna mynd af viðvarandi streitu heilbrigðisstarfsfólks.

7

Trufluð táningsár (Teenage Life Interrupted) - Åse Svenheim Drivenes

Tveir læknar í Tromsø berjast við að hjálpa ungu fólki með óútskýrð einkenni. Líf þeirra hefur verið sett á bið vegna veikinda sem enginn getur útskýrt. Á bak við þau standa fjölskyldur sem þrá sárlega svör – og tveir læknar sem sérhæfa sig í að greina mynstur sem aðrir hafa misst af. Með því að spyrja spurninga sem sjúklingarnir hafa aldrei heyrt áður, nálgast þau skýringuna – svar fyrir svar.

8

Höfuðpaurinn (The Mastermind) - Kelly Reichardt

Það er á brattann að sækja í tilverunni fyrir smiðinn og úthverfapabbann J.B. Mooney. Til að rétta sinn hlut hyggst hann fremja bíræfið listaverkarán sem hefur ýmsar afleiðingar í för með sér í þessari kúnstugu og lágstemmdu mynd þar sem eftirminnilegar persónur knýja framvinduna áfram.

10

Töfrabýlið (Magic Farm) - Amalia Ulman

Leikstjórinn Amalia Ulman beitir hér hárbeittri kaldhæðni svo útkoman verður sprenghlægileg. Hér segir frá óförum hipp og kúl tökuliðs, með Chloë Sevigny í fararbroddi, á leið til Argentínu. Fyrir kostulegan klaufaskap endar teymið í röngu landi svo úr verður röð grátbroslegra mistaka og óhappa.

RIFF 2025 fer fram í Reykjavík dagana 25. september – 5. október og við hlökkum til að taka á móti kvikmyndagerðarfólki og áhorfendum víðsvegar að úr heiminum.

Hátíðarpassar, afsláttarkort (Super 8, U30 Youth Pass) og stakir miðar eru fáanlegir — fjölbreyttir möguleikar fyrir alla kvikmyndaunnendur.
*𝘚𝘵𝘢𝘬𝘪𝘳 𝘮𝘪ð𝘢𝘳 𝘷𝘦𝘳ð𝘢 𝘪́ 𝘣𝘰ð𝘪 þ𝘦𝘨𝘢𝘳 𝘯æ𝘳 𝘥𝘳𝘦𝘨𝘶𝘳 𝘩𝘢́𝘵𝘪́ð𝘪𝘯𝘯𝘪.