Riff Logo
Riff Dates (from 25-September-2025 to 05 october 2025)
Riff Logo
Riff Logo

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – sviptir þessa dagana hulunni af nýju útliti fyrir hátíðina 2025. Það er hönnunarteymið Krot&Krass, sem eru þau Björn Loki og Elsa Jónsdóttir, sem á heiðurinn af hinu nýja útliti sem sjá má á heimasíðu RIFF, á samfélagsmiðlum hátíðarinnar og víðar. Hátíðin fer að þessu sinni fram dagana 25.september til 5. október.

„Hvenær sem við hefjum vinnu við nýtt verkefni byrjum við á að hugsa um hver tilfinningin í verkefninu verður. Í þessu verkefni endurspeglar hönnunin hreyfingu, og flug, og kallast þannig á við kvikmyndir sem eru einskonar hliðarverkuleiki sem hægt er að fljúga inni í,” segir Elsa aðspurð um hugmyndina að baki útlitinu fyrir RIFF 2025. Hönnun þeirra Elsu og Loka mun birtast með ýmsum hætti í aðdraganda hátíðar og meðan á henni stendur, bæði á netinu, á ýmis konar varningi og sem umhverfislist svo dæmi séu tekin.

Hönnuðir frjálsir sem lundar

„Það er mjög gaman að vinna við þetta verkefni fyrir Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík,” bætir Loki við. „Strax og við fengum þetta í hendur sáum við hversu skemmtilegt það yrði, því á hverju ári fær einhver hönnuður algert frelsi til að búa til eitthvað nýtt. Við vinnum að einhverju leyti í kringum lundann, táknmynd RIFF, en að öðru leyti höfum við listrænt frelsi. Við erum frjáls eins og lundi.”

Eina krafan að útkoman sé eitthvað nýtt

„Við erum mjög glöð með að hafa fengið þessa skapandi einstaklinga, þau Elsu og Loka hjá Krot&Krass, í lið með RIFF í ár,” segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, um hönnun hátíðiarinnar árið 2025. „Við erum í eðli okkar listrænn og skapandi viðburður og finnst þess vegna mikilvægt að fá skapandi og hugmyndaríkt fólk til liðs við okkur til að gera eitthvað nýtt fyrir hátíðina á hverju ári. Það er í rauninni eina skilyrðið sem við setjum hverju sinni – að útkoman sé eitthvað nýtt og öðruvísi, og þau hjá Krot&Krass hafa svo sannarlega uppfyllt það,” bætir Hrönn við.

Hönnun sem kallast á við höfðaletur

Tvíeykið Krot & Krass hefur komið víða við á undanförnum árum. Ásamt því að fást við kennslu við Listaháskóla Íslands, Lýðháskólann á Flateyri og Fjölbraut í Breiðholti hafa þau unnið ýmis verk í almannarými og útfært hugmyndir sínar sem lágmyndir og skúlptúra. Þá hefur þeim Elsu og Loka einnig verið höfðaletrið svokallaða hugleikið, en það er séríslensk skrautleturgerð sem einkum var notuð í tréskurði og má í raun segja að sé eina séríslenska leturgerðin. Höfðaletrið er oft torlæsilegt og það endurspeglar að einhverju leyti leturgerðina sem þau unnu fyrir RIFF í ár. Það verður að teljast viðeigandi þar sem höfðaletur er sveipað ákveðinni dulúð sem fangar ímyndunaraflið, rétt eins og töfrar kvikmyndanna eiga til að gera.