Fyrir skemmstu stóð Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrir þremur sýningum á sænsku heimildarmyndinni G-21 Sena frá Gottsunda, að leikstjóranum Loran Batti viðstöddum. Tvær sýningar fóru fram í SAMbíóunum Álfabakka fyrir elstu bekki grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og svo fór fram opin sýning í Háskólabíó, með umræðum á sviði að henni lokinni. Þar áttu Loran Batti og Miriam Petra – fræðsluaðili sem sérhæfir sig í fordómum og inngildingu – áhrifamikið samtal sem vakti djúpar umræður meðal áhorfenda.

Þessar sýningar voru geysivel sóttar og vegna mikillar eftirspurnar mun myndin fara í almenna sýningar síðar í sumar, enda á hún ríkara erindi við íslenskan samtíma en margan grunar.
G-21 Sena frá Gottsunda segir frá sambandi leikstjórans við æskuvini sína sem hafa flækst inn í undirheima og tilheyra harðsvíruðum glæpagengjum í Gottsunda, sem er úthverfi Uppsala. Hún fjallar um innri togstreitu ungs manns: hvort hann eigi að halda tryggð við vinina sem hann ólst upp með, eða feta sinn eigin veg. Myndin tekst á við tilvistarlegar spurningar um sjálfsmynd, vináttu og siðferðileg mörk – án þess að fordæma eða fegra. Hún einkennist af hlýju, innsæi og djúpum skilningi, og dregur upp mynd sem oft vantar í hefðbundna fjölmiðlaumfjöllun.
Þetta er sérlega áhrifarík og eftirminnileg kvikmynd sem talar beint til ungs fólks og aðstandenda – ekki síst nú þegar tíðni frétta um ofbeldi meðal ungmenna hér á landi eykst. Í þeirri samfélagsumræðu eru það oft jaðarsettir hópar sem verða miðpunktur umræðunnar, hvort sem það endurspeglar raunveruleikann eða ekki.
Myndin sýnir glöggt þrána eftir að tilheyra – þrá sem er sjaldan sterkari en á unglingsárunum. Önnur kynslóð innflytjenda er sérstaklega viðkvæmur hópur í þessu samhengi, því oft eru þau hvorki viðurkennd í samfélaginu þar sem þau alast upp né heima fyrir. Þau upplifa sig sænskari – eða íslenskari – en annað fólk sér þau.
Sömu mistök og sænskt samfélag gerði?
Samtal Miriam og Lorans eftir sýninguna var áhrifamikið og hreyfði við mörgum. Miriam benti meðal annars á fjarstæðuna í því að þrátt fyrir að fullyrðingin „við viljum ekki verða eins og Svíþjóð“ hafi um árabil verið áberandi í íslenskri umræðu, þá virðist íslenskt samfélag engu að síður vera að endurtaka sömu mistök og sænskt samfélag gerði.
Loran Batti lagði áherslu á mikilvægi þess að skapa rými fyrir öll ungmenni í samfélaginu – óháð bakgrunni. Hann hvatti til aukins stuðnings við frístundir, íþróttir og félagsmiðstöðvar: örugga staði þar sem ungt fólk getur fengið að tilheyra, átt sér vettvang og mótað sjálfsmynd sína í jákvæðu umhverfi. Hann varaði sérstaklega við þróun sem hann sér í Svíþjóð, þar sem frístundir og íþróttir eru orðnar svo dýrar að einungis börn úr efri millistéttum hafa aðgengi. „Hvað verður þá um hin börnin?“ spurði hann.

Mikilvægi þess að taka samtalið
Við undirbúning verkefnisins átti RIFF í skoðanaskiptum við embætti landlæknis, sem lýsti efasemdum um skólasýningarnar þar sem myndin hefði ekki verið formlega aldursmetin og væri ekki gerð sem forvarnarefni. Þar af leiðandi afþakkaði embættið þátttöku í umræðum að sýningu lokinni.
Við lögðum okkur fram við að bjóða fagaðilum sem vinna að málaflokknum að vera hluti af samtalinu, en fulltrúum og stofnunum sem vinna daglega með ungmennum eða að forvörnum var boðið að taka þátt í pallborðsumræðum að lokinni sýningu. Þar á meðal voru Heimili og skóli, frístundasvið Reykjavíkurborgar, samfélagslögreglan, greiningardeildin og deild afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra. Engin þessara stofnana treysti sér þó til að taka þátt – hvort sem það var í kjölfar viðbragða embættis landlæknis eða af öðrum ástæðum.
Það er alvarlegt þegar þeir sem vinna að þessum mikilvægu málaflokkum treysta sér ekki til að taka þátt í opinberu samtali um þau – sérstaklega þegar tækifæri gefst á að byggja slíkt samtal á reynslu og vitnisburði radda sem sjaldan fá að heyrast í opinberri umræðu. Þegar slíkt tækifæri gefst, eigum við ekki að líta undan.
RIFF – rými fyrir ólíkar raddir
RIFF hefur frá upphafi einsett sér að vera vettvangur samræðna og skoðanaskipta. Í samfélagi nútímans verður sífellt erfiðara að safna fólki saman augliti til auglitis, í rými þar sem pláss er fyrir ólík sjónarhorn. Í bíósalnum fáum við tækifæri til að upplifa heiminn með augum annarra – því kvikmyndir auka víðsýni, dýpka skilning og leggja grunn að innihaldsríkum samræðum þegar ljósin kvikna að nýju.
Mynd Lorans er mikilvægur upphafspunktur í slíkri samræðu. Hún sýnir að hægt er að fjalla um ofbeldisfullt umhverfi án þess að fegra það, án þess að rómantísera, en með samúð og dýpt sem hefðbundnir miðlar ná sjaldan að endurspegla. Hún dregur upp heildstæðari mynd af einstaklingnum – með öllum sínum mótsögnum og flóknu tilfinningum – og kallar á raunverulega samræðu um samfélagið sem við viljum byggja.
Því teljum við mikilvægt að kvikmyndahátíð eins og RIFF skapi rými fyrir þessar raddir og verði vettvangur samræðna – líka þegar þær eru flóknar. Að opna á slíka umræðu er ekki aðeins réttlætismál heldur forsenda fyrir víðsýnna og mannúðlegra samfélagi. Við verðum að geta tekið samtalið. Ef við höfum þá stefnu að ungmenni megi einungis sjá myndir sem eru sérstaklega búnar til sem forvarnarefni og sem sýna ekki samfélög þar sem ofbeldi er hluti af veruleikanum, þá útilokum við jafnframt þær jaðarsettu raddir sem hafa brýnast erindi.
