Það er RIFF sönn ánægja að segja frá því að hátíðin mun taka þátt í OMVF keppninni um bestu norrænu tónlistarmyndböndin, sem haldin verður á vegum Oulu Music Video Festival (OMVF) árið 2025. Sem hluti af samstarfinu mun RIFF taka þátt í forskoðunardómefnd keppninnar, sækja OMVF 2025 og skipuleggja sérstaka sýningu á norrænum tónlistarmyndböndum á RIFF 2025, dagana 25.september til 5. október.
Samstarfsvettvangurinn sem felst í keppninni er mikilvægur fyrir skapandi tónlistarmyndbandagerðarfólk og kvikmyndagerðarfólk á Norðurlöndum og stuðlar að listrænni samvinnu og myndun á faglegu tengslaneti á svæðinu. Framkvæmdastjóri Oulu Music Video Festival, Juhani Oivo, heimsækir RIFF í haust og mun meðal annars þeyta skífum við vel valið tilefni meðan á hátíð stendur. Meira um það síðar.
Elsta tónlistarmyndbandahátíðin – og fyrsta keppnin
Oulu Music Video Festival, elsta tónlistarmyndbandahátíð heims, kynnir nú sína fyrstu alþjóðlegu keppni: Norrænu tónlistarmyndbandakeppnina! Keppnin er opin leikstjórum sem búa og starfa í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Listafólk getur sent inn myndbönd í gegnum FilmFreeway til og með 31. Maí en fresturinn hefur verið framlengdur um viku. Af öllum innsendingum verða tólf myndbönd valin til sýningar á hátíðinni, og verður leikstjórunum boðið til Oulu þar sem gistingu er einnig veitt meðan á hátíðinni stendur.
Taktu þátt og sendu inn myndband!
Sigurvegari keppninnar verður verðlaunaður á hátíðarkvöldi OMVF með sérhönnuðu listaverki eftir Irene Suosalo og fullkomnum Genelec 8351B SAM™ hátölurum að verðmæti 8.000 €, veittum af Genelec. Hægt er að senda inn gegnum þennan hlekk:
https://www.omvf.net/nordic-music-video-competition
Oulu Music Video Festival fer fram dagana 21.–25. ágúst 2025 í Oulu, Norður-Finnlandi. Á dagskrá hátíðarinnar eru sýningar á völdum tónlistarmyndböndum og kvikmyndum, pallborðsumræður, vinnusmiðjur, tengslamyndunarviðburðir, hljóð- og myndræn eftirpartí, listsýningar og margt fleira. Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt síðar í þessum mánuði.
Norræna tónlistarmyndbandakeppnin hjá OMVF hefur hlotið styrk úr Menningar- og listaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og er hluti af opinberri dagskrá Oulu 2026 – evrópsku menningarborgarinnar. Árið 2026 mun keppnin stækka og ná yfir Evrópu alla.
RIFF hlakkar til að taka þátt í þessum magnaða viðburði á hátíðinni í haust.