Riff Logo
Riff Dates (from 24-September-2026 to 04 october 2026)
IMG 3436

Á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í gærkvöld var tælenska leikstjóranum Apichatpong Weerasethakul veitt heiðursverðlaun fyrir einstaka listræna sýn.

Verðlaunin veitti Rúnar Rúnarsson verðlaunaleikstjóri. Í ræðu sinni sagði Rúnar kvikmyndir Apichatpong vera ólíkar annarri kvikmyndalist. Hann benti þó á að hliðstæður mætti finna á milli íslenkrar kvikmyndagerðar og tælenskrar, þrátt fyrir fjarlægðina milli landanna tveggja, þar sem hið ósjéða er gjarnar afhjúpað og bergmál staða og minninga heyrist hátt og skýrt.

Rúnar Rúnarsson er þekktur fyrir myndina Ljósbrot, með Elínu Hall og Kötlu Njálsdóttur í aðalhlutverkum, og nýjasta stuttmynd hans, O (Hringur), með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki fór sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins árið 2024.

Tælenski leikstjórinn Apichatpong Weerasethakul hélt meistaraspjall fyrir fullum sal í Háskólabíói í kjölfar sýningar á myndinni Memoria, stórmynd leikstjórans frá árinu 2021 með Tildu Swinton í aðalhlutverki. Apichatpong sagði um RIFF og kvikmyndahátíðir almennt að þar geti myndast tengsl. Á kvikmyndahátíðum fær fólk svör við spurningum lífsins og að svoleiðis fæðist lifandi lífvera kvikmyndalistarinnar.

Apichatpong er meðal frumlegustu og róttækustu kvikmyndagerðarmanna samtímans.
Hann fæddist í Bangkok árið 1970 og ólst upp í norðausturhluta Taílands þar sem hann lærði arkitektúr áður en hann hélt til Chicago í kvikmyndanám. Þar þróaði hann sinn einstaka stíl sem snýst um minningar, tilfinningar og andlega leit frekar en hefðbundinn, línulegan söguþráð. Þó myndir Apichatpong virðist ópólitískar við fyrstu sýn, endurspegla þær oft undirliggjandi átök: ritskoðun, félagslegt taumhald og bælda sögu Taílands. Hann miðlar fremur með stemningu en yfirlýsingum — kvikmyndir hans líkjast oft óljósum draumum.