,,úrvalið aldrei meira
af íslenskum myndum í fullri lengd”
Íslensk kvikmyndagerð er í hávegum höfð á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík sem hefst í Háskólabíói á fimmtudag í næstu viku, þann 26. september og stendur yfir til 6. október.
Úrvalið af leiknu efni og heimildarmyndum, eftir íslendinga eða um Ísland, hefur raunar aldrei verið meira en á RIFF í ár „og er það sérstakt fagnaðarefni og sýnir öðru fremur gróskuna og þróttinn í listalífinu hérlendis,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, en hátíðin er nú haldin í 21. sinn.
Myndirnir hafa margar hverjar vakið feiknamikla athygli á kvikmyndahátíðum nýverið – og má þar nefna Temporary Shelter / Tímabundið skjól í framleiðslu Helga Felixsonar sem fékk frábæra dóma á nýafstaðinni Toronto-hátíð. Eins hefur kanadíska myndin Hotel Silence sem byggir á skáldsögunni Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur hlotið mikla athygli og höfundinum raunað fagnað sem rokkstjörnu. Þá er sálfræðitryllirinn All Eyes on Me / Allra augu á mér heimsfrumsýndur á RIFF í ár, en með aðalhlutverk þar fara Guðmundur Ingi Þorvalsson, Svandís Dóra Einarsdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir. Loks má minnast á DuEls sem byggir á dansverki Ernu Ómarsdóttur í leikstjórn sænska þúsunþjalasmiðsins Jonas Åkerlund, sem sló í gegn í Noregi nýverið.
Af myndum í fullri lengd í ár er annars vert að vekja athygli á eftirfarandi verkum:
Elskling / Elskuleg
Lilja Ingólfsdóttir, íslensk-norsk.
María reynir að sinna fjórum börnum sínum af álíka metnaði og starfsframanum en sinnast einn daginn við eiginmanninn sem fer fyrir vikið fram á skilnað.
DuEls / Einvígin
Jonas Äkerlund, íslensk-norsk-sænsk.
Dansverk samið af Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet og flutt er innan um kynngimagnaðar höggmyndir á Vígelundssafninu í Osló í seiðandi listfengi.
Natatorium / Sundhöll
Helena Stefánsdóttir, íslensk.
Þegar fjölskylda Lilju, sem hefur ekki hist í langan tíma, kemur saman til að fagna inntöku hennar í listhóp, koma ljót fjölskylduleyndarmál upp á yfirborðið.
Aftergames / Eftirleikir
Ólafur Árheim, íslensk.
Maður í leit að dauðanum og kona á flótta reyna að gera upp ofbeldisfulla fortíð sína með frekari hrottaskap, þvert á plön alheimsins – í harla ískyggilegum trylli.
All Eyes on Me / Allra augu á mér
Pascal Payant, íslensk-kanadísk.
Gunnar, sem kýs fremur vinskap hrossa en fólks, kynnist pólskri konu á flótta frá fortíðinni, þegar hann fer á slysstaðinn þar sem kona hans og sonur hröpuðu.
Birdlife / Fuglalíf
Heimir Freyr Hlöðversson, íslensk.
Heimildarmynd um Jóhann Óla Hilmarsson, baráttumann náttúruverndar, sem er fyrsti og eini Íslendingurinn sem gerði fuglaljósmyndun að atvinnu sinni.
Boganloch / Einbúinn
Ben Rivers, íslensk, skosk, þýsk.
Uppi í víðernum Skotlands, fylgjum við Jake eftir frá einni árstíð til annarrar á meðan aðrar persónur skjóta af og til upp kollinum í einmanalegri vist hans.
Iceland, on the Trail of Democracy / Ísland á vegi lýðræðisins
Steve Vilhelm, frönsk.
Ný frönsk heimildarmynd um íslensku búsáhaldabyltinguna sem spratt upp í efnagshruninu í októbermánuði árið 2008, upphaf hennar, framvindu og áhrif.
Hotel Silence / Ör
Léa Pool, kanadísk, byggð á skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Ör.
Jean gerir sér ferð til stríðshrjáðs lands og veit hvorki hvort hann skili sér til baka né hver örlög hans verða, enda er hann svo að segja ráðvilltur í öllu sínu skinni.
Temporary Shelter / Tímabundið skjól
Anastasiia Bortuali, íslensk, sænsk, framleidd af Helga Felixsyni.
Heimildarmynd um flóttafólk frá Úkraínu og öðrum löndum sem hefur aðsetur á Ásbrú, og bíður örlaga sinna og spyr hvort það sé komið til að vera á þeim stað.
When the Raven Flies / Hrafninn flýgur
Hrafn Gunnlaugsson, íslensk, sænsk.
Gestur snýr aftur til Íslands til að hefna foreldra sinna sem hann sá myrta þegar hann var lítill drengur á Írlandi. 40 ára dáður og sígildur íslenskur spagettí-vestri.
Flowers / Blóm
Grétar Jónsson, íslensk.
Afslöppuð og býsna hugljúf gamanmynd um þá áskorun mannsins að þora að halda með hjartanu og sjálfstraustið sem þarf til að fylgja draumum sínum eftir.
Hamraborgin – Óður til hávaða / Hamraborgin – Ode to Noise
Úlfur Eldján, Patrik Ontkovic, íslensk.
Byggð á tónverki Úlfs sem flutt var í Salnum í Kópavogi, en við það blandast myndefni Patrik Ontkovic sem fangar á filmu hráa fegurð Hamraborgarinnar.
Fékk standandi lófatak í Tékklandi
Egghvast tilfinningadrama Lilju slær í gegn
Norsk-íslenska kvikmyndagerðarkonan Lilja Ingólfsdóttir á heiðurinn að opnunarmynd Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík í ár, RIFF, en hún hefst í Háskólabíói 26. september næstkomandi og stendur til 6. október.
Óhætt er að segja að myndin hafi slegið í gegn, en hún fékk standandi lófatak á hinni virtu kvikmyndahátíð í Karlovy Vary í Tékklandi fyrr í sumar og hreppti þar ekki færri en fimm verðlaun. “Móttökurnar eru eiginlega óraunverulegar,” segir Lilja sjálf, stödd á kvikmyndahátíðinni Cinefest í Búdapest, en búið að selja myndina til tuttugu landa og er ekkert lát á. “Ég er eiginlega hálfringluð. Það er verið að bjóða mér á hátíðir út um allan heim,” bætir hún við.
Elskling eins og heiti myndarinnar er á norsku, eða Elskuleg á íslensku (e. Loveable), er frumraun Lilju á hvíta tjaldinu, en verkið var frumsýnt fyrr á árinu í Osló og er óhætt að segja að það hafi vakið mikla athygli fyrir tilfinningarík efnistök og einstaka túlkun aðalleikkonu myndarinnar, Helgu Guren sem samkvæmt umsögn Variety þykir sýna einstakan kjark (e. gutsy performance) í hlutverki Maríu sem reynir að sinna fjórum börnum sínum af álíka metnaði og starfsframanum á meðan seinni eiginmaður hennar, Sigmund, er á stöðugum ferðalögum. Dag einn sinnast þeim aftur á móti heiftarlega sem verður til þess að karlinn fer fram á skilnað.
“Myndin byggir á minni eigin lífsreynslu,” útskýrir Lilja. “Ég og maðurinn minn til fimmtán ára lentum í hjónabandskrísu á sínum tíma, eins og gengur – og þaðan er fyrirmyndin komin,” heldur hún áfram, en ekki einasta búa þau saman, enn þann dag í dag, heldur eiga þau fjögur börn og vinna náið saman; Øystein Mamen er nefnilega tökumaður bíómyndarinnar sem hér er til umfjöllunar.
Variety segir enn fremur í gagnrýni sinni um þetta byrjendaverk Lilju að þar lifni við „egghvasst tilfinningadrama“ (e. emotionally jagged) og enn fremur að myndin sé “óvenjuleg og snjöll saga sem leiti svara við því af hverju annað hjónabandið í röð fari eins og það fyrra, og hverjum, ef einhverjum, það sé að kenna.“
Hún segir fjölmarga áhorfendur samsama sig myndinni. “Þeir segja hana nístandi sanna. Ég hef ekki undan að tala við konur sem segja mér óðamála að myndin sé um dóttur þeirra eða mömmu þeirra,” segir Lilja og bætir því við að það sé eins og efniviðurinn hitti fyrir réttu taugarnar. Það séu enn ein ummælin.
“Ætli ég sé ekki búin að vera undirbúa þessa mynd í meira og minna sex ár, eða allt frá 2018,” rifjar Lilja upp, en hún á að baki tugi stuttmynda frá því hún útskrifaðist úr kvikmyndanámi frá London Film School og síðar Famu í Prag vorið 2001. Elskling er fjórða kvikmyndahandritið í fullri lengd sem hún skrifar.
Hún býr í Osló með Øystein og börnum þeirra hjóna, flutti þangað níu ára gömul frá Íslandi á níunda áratug síðustu aldar, dóttir Tone Myklebost sem fylgist nú með velgengni dóttur sinnar á kvikmyndahátíðinni í Búdapest og víðar um Evrópu, og Ingólfs heitins Margeirssonar, blaðamanns og rithöfundar sem lést vorið 2011.
Og hún hlakkar til að koma “heim” á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, síðar í september – og sýna landsmönnum þessa bíómynd sína sem er ein sú umtalaðasta í Evrópu nú um stundir.
Hátíðin hefst sem fyrr segir 26. september í Háskólabíó og stendur til 6. október með úrvali vandaðra kvikmynda og allskonar viðburða sem skipta hundruðum.
Eftirlæti stóru poppstjarnanna
á leið til Íslands
Sænski leikstjórinn Jonas Åkerlund er á leið til landsins á næstu viku, en hann verður á meðal heiðursgesta RIFF í ár, ásamt pólsk-þýsku leikkonunni Nastassja Kinski, gríska leikstjóranum Athina Tsangari og þá verður suður-kóreski leikstjórinn og Óskarsverðlaunahafinn Bong Joon-ho heiðraður á hátíðinni, en allir ofantaldir munu ávarpa gesti og svara spurningum.
Åkerlund mun mæta hingað til lands með DuEls, eða Einvígin á ylhýrri íslensku, sem er eitt af óvenjulegustu kvikmyndaverkunum sem prýða hátíðina í ár, en þar er komin dansmynd sem byggir á vinsælu verki norska danshópsins í Nagelhus Schia. Það er samið af þeim Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur og kom fyrst fyrir almenningssjónir á Vigelundsafninu í Osló 2020 og þótti leysa úr læðingi alla þá krafta sem stafa af höggmyndunum sem þar er að finna.
Þetta er óvenjuleg mynd í marga staði og þykir bera höfundarverki Åkerlund glöggt vitni, en sá alþjóðlega verðlaunaði leikstjóri fer gjarnan ótroðnar slóðir í sköpun sinni, hvort heldur er í leiknum kvikmyndum, heimildarmyndum, tónlistarsýningum, leiksýningum eða auglýsingagerð, svo og músíkmyndböndum, en á síðastnefnda sviðinu hefur hann unnið með mörgum stærstu poppstjörnum samtímans á borð við Paul McCartney, Madonnu, Lady Gaga, Beyoncé, Ozzy Osbourne og hljómsveitum eins og Duran Duran og Metallica.
Hann mun ræða um náið samstarf sitt við þessa heimskunnu listamenn sem hefur verið langt og farsælt við gesti RIFF.
RIFF hefst í Háskólabíói 26. september og stendur yfir til 6. október.